Fjórir berjast um sigur á Íslandsmótinu

Bragi Þorfinnsson og Hannes Hlífar Stefánsson.
Bragi Þorfinnsson og Hannes Hlífar Stefánsson.

Þegar sex umferðum af ellefu er lokið á Íslandsmótinu í skák er ljóst að baráttan stendur á milli fjögurra manna. Allir unnu þeir með svörtu í sjöttu umferð sem fram fór í dag.

Stórmeistararnir Guðmundur Kjartansson og Hannes Hlífar Stefánsson er eru efstir með 5 vinninga. Guðmundur vann Lenku Ptácniková, stórmeistara kvenna, en Hannes lagði kollega sinn úr stórmeistarastétt Braga Þorfinnsson fremur örugglega að velli. Hannes, sem er þrettánfaldur Íslandsmeistari, hefur unnið 5 skákir í röð eftir að hafa tapað fyrir Guðmundi í fyrstu umferð.

Stutt er í ungu mennina, nýjasta stórmeistarann, Vigni Vatnar Stefánsson, og alþjóðlega meistarann Hilmir Freyr Heimsson sem einnig unnu báðir í dag. Þeir hafa 4½ vinning. Vignir hafði sigur á alþjóðlega meistaranum Degi Ragnarssyni í lengstu skák umferðarinnar en Hilmir hafði betur gegn Jóhanni Ingvarssyni.

Það er langt bil í Jóhann Hjartarson sem er fimmti með 3 vinninga. Hann vann Henrik Danielsen í dag sem hefur tapað fjórum skákum í röð eftir góða byrjun. Að lokum má nefna það að Aleksandr Domalchuk-Jonasson hafði sigur á Íslandsmeistaranum Hjörvari Steini Grétarssyni sem hefur engan veginn náð sér á strik á mótinu og er úr leik í baráttunni um sigur.

Dagur Ragnarsson og Vignir Vatnar Stefánsson.
Dagur Ragnarsson og Vignir Vatnar Stefánsson.

Svona standa leikar

Staðan þegar 6 umferðum af 11 er lokið:

1.-2. Guðmundur Kjartansson og Hannes Hlífar Stefánsson 5 v.

3.-4. Vignir Vatnar Stefánsson og Hilmir Freyr Heimisson 4½ v.

5. Jóhann Hjartarson 3 v.

6.-9. Aleksandr Domalchuk-Jonasson, Lenka Ptácníková, Bragi Þorfinnsson, og Hjörvar Steinn Grétarsson 2½ v.

10. Henrik Danielsen 2 v.

11. Dagur Ragnarsson 1½ v.

12. Jóhann Ingvason ½ v.

Sjöunda umferð fer fram á morgun og hefst kl. 15.

Rétt eins og í dag mætast efstu menn ekkert innbyrðis. Guðmundur teflir við Dag, Hannes gegn Lenku, Vignir á móti Henrik og Hilmir sest andspænis Braga.

Upplýsingar um hvernig best sé að fylgjast með mótinu má nálgast á skak.is. Mótinu lýkur 25. maí. Ein umferð fer fram á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert