Lögreglu barst tilkynning um mann sem „var að ganga á hurðar á hóteli í miðborginni,“ að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Viðkomandi var rólegur þegar lögreglu bar að garði og var fluttur upp á lögreglustöð þar sem hann reyndist eftirlýstur í kerfum lögreglunnar.
Þá var tilkynnt um ungmenni undir lögaldri að versla áfengi inni á skemmtistað í miðborginni. Einnig var tilkynnt um ungmenni í annarlegu ástandi í Grafarvogi. Hópslagsmál brutust svo út meðal 18 til 20 ungmenna í Breiðholti.
Lögreglan sinnti eftirliti með vínveitingahúsum í gær þar sem grunur lá á starfsemi án rekstrarleyfis. Starfsmenn gátu ekki framvísað lögreglu rekstrarleyfi og var því gert að loka staðnum tafarlaust.
Loks var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna aðila sem var að reykja kannabis inni í strætisvagni.