Anna Sigurbjörnsdóttir, stjórnandi skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts, segir þrælgaman hafa verið þegar hátt í 60 krakkar úr hljómsveitinni gistu í tjöldum í íþróttahúsinu í Fellaskóla í nótt. Krakkarnir hafi þó verið leiðir yfir því að fá ekki að fara til Eyja.
Landsmóti A og B-skólahljómsveita var aflýst vegna veðurs, en til stóð að 700 börn í A og B-sveitum víðs vegar um landið og 100 fararstjórar héldu til Vestmannaeyja um helgina til að taka þátt í Landsmóti. Þess vegna var tekið á það ráð að tjalda í íþróttahúsinu.
Krakkarnir voru í sundi þegar blaðamaður hafði samband og höfðu þau þegar gengið frá tjöldunum eftir „innileguna“ og tekið til.
„Í gær fórum við fyrst í bíó og komum síðan í íþróttahúsið og tjölduðu og fórum í leiki. Svo voru allir með vasaljós í tjöldunum,“ segir Anna í samtali við mbl.is.
Hún segir aðeins erfiðlega hafa gengið að koma börnunum í svefn eftir nammikvöld.
„Þau voru vel tjúnuð eftir að hafa borðað svolítið af nammi en þetta hafðist nú allt saman,“ segir Anna.
Anna segir að krakkarnir hafi að sjálfsögðu verið leiðir yfir því að hafa ekki fengið að fara til Eyja.
„Við vonumst til þess að geta komist þangað við betra tækifæri. Þetta hittist ótrúlega illa á að veðrið skyldi vera svona slæmt. Þá var ekkert annað að gera en að reyna að gera eitthvað gott úr stöðunni,“ segir Anna
„Við höfum aldrei tjaldað í svona góðu veðri og aldrei tjaldað á svona jöfnu undirlagi,“ bætir Anna við kímin um aðstæðurnar í íþróttahúsinu.
„Þetta var þrælgaman og ég vona að krakkarnir hafi notið þess.“