Dómurinn breytir engu um sannfæringu Bjarna

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir niðurstöðu héraðsdóms í máli héraðsdómara gegn ríkinu engu breyta um sannfæringu sína.

Ástríður Gríms­dótt­ir héraðsdóm­ari þarf ekki að end­ur­greiða of­greidd laun sam­kvæmt dómi Héraðsdóms Reykja­vík­ur sem féll 15. maí. Málið höfðaði hún gegn ís­lenska rík­inu vegna kröfu Fjár­sýslu rík­is­ins um end­ur­greiðslu á of­greidd­um laun­um.

„Ég hef einfalda grundvallarafstöðu í þessu máli. Hún snýst um að ef í ljós kemur að fólk hafi fengið ofgreitt úr sameiginlegum sjóðum, þá sé rétt og eðlilegt að því sé skilað sem ofgreitt var. Það gildir um opinbera starfsmenn rétt eins og alla aðra. Niðurstaðan breytir engu um sannfæringu mína hvað þetta varðar,“ segir Bjarni í skriflegu svari til mbl.is.

„Við munum gaumgæfa niðurstöðu héraðsdóms, en þar virðist ekki sérstaklega tekið á meginatriði málsins – þ.e.a.s. réttmæti endurkröfunnar sem um ræðir, og taka ákvörðun um framhald málsins á næstu dögum,“ segir Bjarni um dóminn.

„Ekkert minna en siðferðisbrestur“

Málið sner­ist um of­greidd laun æðstu emb­ætt­is­manna þjóðar­inn­ar en fjár­sýsl­an greindi frá því í júlí árið 2022 að 260 af æðstu emb­ætt­is­mönn­um lands­ins hefðu fengið greidd of há laun, eða því sem nam um 105 millj­ón­um króna sam­tals. Fjár­málaráðuneytið krafði emb­ætt­is­menn­ina um end­ur­greiðslu sem átti að fara fram í áföng­um á tólf mánuðum.

Bjarni sagði á Facebook fyrir tæpu ári síðan að fólkið í landinu ætti ekki að þurfa að hlusta á að það sé flókið fyrir efsta lag ríkisins, æðstu embættismennina, að skila því sem ofgreitt var úr opinberum sjóðum. „Annað væri hrikalegt fordæmi og er ekkert minna en siðferðisbrestur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert