Einn af sumarboðunum er án efa fallegu og fiðruðu fargestirnir sem flykkjast hingað til lands áður en þeir halda för sinni áfram til annarra landa. Rauðbrystingar, sem gjarnan hafa verið kallaðir umferðarfuglar, staldra stutt við hér á landi eða einungis í 2-3 vikur áður en þeir halda á brott.
„Þeir eru að koma frá Evrópu og jafnvel Vestur-Afríku og eru á leiðinni á varpstöðvar alveg nyrst í Kanada og Norðvestur-Grænlandi,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur.
Rauðbrystingarnir þurfa að fara langa leið og því er gott að æja á eyjunni í norðri til að fita sig aðeins áður en haldið er áleiðis. Að sögn Jóhanns fara þeir víða um landið en eru þó mest á því vestanverðu, við Faxaflóa og Breiðafjörð. Þá segir Jóhann fjölda þeirra geta skipt þúsundum en þeir stoppa þar sem eru leirur og æti fyrir þá og sækja mest í fjörur þar sem þeir komast í smádýrin. „Þetta er stundum kallað „bensínstöðin Ísland“ fyrir þessa fugla sem fara þessa löngu leið, þeir þurfa góða orku fyrir ferðalagið.“