Sigríður Hagalín Björnsdóttir fréttamaður spurði leiðtoga allra stjórnmálaflokkanna, sem eiga sæti á þingi, hvað þeir ætli að gera í sumar í Silfrinu í dag þar sem liðinn þingvetur var krufinn.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðiflokksins, sagðist ætla fara í gönguferðir, veiðiferðir, útreiðartúra og þá ætlar hann með alla fjölskylduna til Evrópu í sólina í lok sumars.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, ætlar að eyða tíma með nýfæddri dóttur sinni en hún fæddist í febrúar. Þá ætlar hún að ferðast um landið og kíkja í heimsókn til systur sinnar í Svíþjóð.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagðist ætla vera mikið heima og heimsækja son sinn í Þýskalandi.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagðist ekki vera með neitt planað. „Ég held ég verði bara á Íslandi því mér finnst íslenska sumarið það besta í heimi.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist gera ráð fyrir því að verða á ferðinni um Ísland en einnig að fara í Evrópuferð í tilefni afmælis og brúðkaupsafmælis foreldra hans.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, dreymir um að hitta kjósendur um allt land á húsbíl flokksins. „Með kassagítarinn á kantinum og vöfflujárnið líka.“
Björn Levý Gunnarsson, formaður Pírata, ætlar að sinna fjölskyldunni og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, ætlar að eyða tímanum í sveitinni sinni og fara í útreiðartúra.
„Svo ætla ég að reyna styðja við Seðlabankann og fara ekki til útlanda, en þá verður þetta veður að fara skána,“ sagði Sigurður Ingi.