„Það er voða lítið að frétta fyrir Sjálfstæðisflokkinn í fylgiskönnunum,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurður út í þá staðreynd að Samfylkingin mælist með mest fylgi í fylgiskönnunum í Silfrinu í dag.
Hann sagði að fylgi Sjálfstæðisflokksins hafi verið svipað frá árinu 2009 og að flokkurinn þyrfti vissulega að bæta við sig fylgi.
Bjarni sagði það ekki koma honum á óvart að á tímabilum nái stjórnarandstaðan sér aðeins á strik í könnunum.
Hann viðurkenndi að Samfylkingin væri nú komin á skrið, „það er bara góður árangur sem hún hefur náð í könnunum. Það er langt til kosninga. Við óttumst aldrei kosningar.“
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að hún vildi sjá mið-vinstri stjórn í landinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að ef það ætti að vera skynsamleg stjórn þá yrði Framsókn að vera þar á meðal og uppskar hlátur.