Rigning tefur vorverkin

Borið á tún í apríl. Mynd úr safni.
Borið á tún í apríl. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er ákaflega gott vor hérna,“ segir Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri búnaðarsambands Eyjafjarðar, og hefðbundin vorverk bænda hafa gengið vel. Hann segir að um umskipti sé að ræða frá því fyrir ári þegar maí var frekar blautur og stoppa hafi þurft vorverk og jarðvinnslu reglulega. „Maí hefur verið átakalítill.“

Sigurgeir segir að það hafi komið norðankuldi fyrir nokkrum dögum en menn eigi alltaf von á því að það gerist eitthvað. Aðstæður sitthvorumegin við Eyjafjörð séu eflaust verri því þegar það hafi snjóað í Húnavatnssýslunum og fyrir austan þá hafi rétt náð að grána í Eyjafirðinum um stutta stund.

„Það er hvergi kal og túnin eru ágætlega falleg.“ Hann segir vorið þó ekki hafa farið sérstaklega snemma af stað. „Það voru það mikil næturfrost og meðalhitinn var frekar lágur framan af en annars var þetta bara ágætt.“

Miklir kuldar í vetur fóru ekki fram hjá nokkrum landsmanni. Skyldu þeir hafa haft áhrif á vorverkin og bústörfin fram undan? „Nei ekki þannig, það var víðast hvar snjór yfir hérna þegar mestu frostin voru, sérstaklega um miðjan veturinn, það er ekki neitt sem hafði áhrif hér.“

Hlýindi sem komu í febrúar og fram í mars hjálpuðu mikið til við að tryggja að aðstæður fyrir norðan eru góðar. Sigurgeir segir að þau hafi gert að verkum að snjó og klaka hafi alls staðar tekið upp. „Menn voru með það á hreinu þá að það yrði ekki neitt kal í vor. „Allt sem snýr að náttúrunni er þokkalega jákvætt. Menn eru um það bil að verða búnir að sá korninu, svo fara þeir yfir í að sá grasfræi og grænfóðri,“ segir Sigurgeir. Áburðardreifing er langt komin en tæknin hefur hafið innreið sína við vorverk bænda og áburðardreifingu á tún verið útvistað í auknum mæli. Mjög margir fá nú verktaka til að dreifa áburði á jarðir sínar sem eru búnir tæknivæddum tækjum, t.a.m. dreifurum með gps-staðsetningartækum. Við það verður áburðardreifingin nákvæmari en dreifarinn lokar fyrir dreifingu á fyrirframskilgreindum svæðum sem ekki þarf að bera áburð á. „Dreifingin er miklu nákvæmari en hún var,“ segir Sigurgeir en stærri búin kaupa áburð fyrir margar milljónir þannig að sparnaðurinn af nýju vinnulagi getur verið umtalsverður, sérstaklega þar sem áburðarverð er hátt um þessar mundir. „Þessi tækni hefur breiðst mjög hratt út.“

Önnur staða á Suðurlandi

„Þetta er búið að vera sérstakt vor. Það hefur vorað fremur hægt. Það var heilmikill klaki í jörðu eftir mikið frost í mars þannig að vorverk drógust. Á hluta Suðurlands gerði mjög mikinn snjó um mánaðamót apríl og maí sem stóð næstum því í viku. Þetta náði 50-70 cm þar sem mest var niðri við ströndina,“ segir Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands.

„Síðan snjóa tók upp er næstum því búið að rigna stanslaust.“ Jarðvinnsla hefur því gengið illa og það á eftir að sá miklu. Sveinn segist ekki vita til þess að bændur á Suðurlandi séu teknir að bera áburð á tún að nokkru marki. „Hins vegar sprettur gróður vel í vætunni. En þetta hefur verið mjög óvenjulegt að því leytinu til að það er búin að vera svo mikil væta, það þornar ekki á steini.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert