Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að bakslag í baráttu hinsegin fólks og sérstaklega trans fólks að mörgu leyti minna á fordóma og útilokun sem hinsegin samfélagið allt upplifði á tímum alnæmisfaraldursins.
Katrín flutti ávarp á minningarstund samtakanna HIV Ísland í Fríkirkjunni í dag. Á þessu ári eru fjörutíu ár liðin frá því að fyrsta HIV-smitið var greint á Íslandi.
„Á undanförnum árum höfum við borið gæfu til að búa að mestu við breiða og þverpólitíska sátt um réttindi hinsegin fólks. Því miður hefur hins vegar á undanförnum misserum orðið vart við ákveðið bakslag, ekki síst að því er varðar réttindi trans fólks.
Þegar við skoðum umræðuna og jaðarsetningu trans fólks minnir það á sumu leyti á þá fordóma og útilokun sem hinsegin samfélagið allt upplifði á tíma alnæmisfaraldursins, og við skulum muna þá sögu og læra af henni þegar við tökumst á við áskoranir okkar tíma,“ sagði Katrín meðal annars.
Katrín sagðist telja mjög mikilvægt að allir hlusti á þá sáru reynslu fólks sem veiktist af HIV. Einnig að hlustað verði á upplifun aðstandenda, fjölskyldu og ástvina þeirra sem létust mörg hver í þögn og skömm.
„Ég vil harma þær þjáningar og þá erfiðu lífsreynslu sem HIV-smitaðir og ástvinir upplifðu á þessum tímum þar sem vanþekking og fordómar gagnvart HIV-smituðum og hinsegin fólki voru ráðandi í samfélaginu.
Sagan þeirra, sagan af reynslu þeirra og baráttu, þarf að heyrast og hún þarf að vera skráð. Og við sem samfélag þurfum að horfa í eigin barm og viðurkenna okkar þátt í þeim þjáningum. Sú viðurkenning er nauðsynleg,“ sagði Katrín.