„Það sem gerist annars staðar getur gerst á Íslandi“

„Það sem gerist annars staðar getur gerst á Íslandi.“

Þetta segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í viðtali við Dagmál. Jón er gestur í þáttaröð Dagmála um öryggis- og varnarmál og var viðtal við hann sýnt á mbl.is fyrir helgi.

Í þættinum er meðal annars fjallað um viðbragðsgetu og búnað lögreglunnar, rannsóknir á skipulagðri glæpastarfsemi, samskipti við erlendar löggæslustofnanir og annað sem snýr að borgaralegu öryggi.

Mikill viðbúnaður var við leiðtogafund Evrópuráðsins sem fram fór hér …
Mikill viðbúnaður var við leiðtogafund Evrópuráðsins sem fram fór hér á landi í vikunni. Eggert Jóhannesson

Verði undanskilin hagræðingarkröfum

Þar er Jón spurður að því hvort að íslenska lögreglan búi við nægilega getu og viðbragðsþrótt ef upp koma voveiflegir atburðir hér á landi. Jón svarar því játandi. Hann vísar þó til þess að það sem getur gerst annars staðar geti líka gerst á Íslandi og að lögregluyfirvöld séu meðvituð um það.

Þá segir Jón að lögreglan verði á næstu árum undanskilin almennum hagræðingarkröfum. Hann bendir á að um 85% af kostnaði við löggæslu hér á landi sé fólgin í mannauði.

Jón nefnir þó að hægt sé að nýta mannafla innan lögreglunnar betur og nú sé til dæmis unnið í því með markvissum hætti að flytja og deila verkefnum milli embætta til að ná fram hámarskárangri og fara betur með skattfé borgaranna.

Sérsveit ríkislögreglustjóra
Sérsveit ríkislögreglustjóra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Horfa þurfi til möguleika á hryðjuverkum

Hvað öryggisþáttinn varðar segir Jón að til lengri tíma þurfi að huga að vöktun á mikilvægum innviðum, svo sem fjarskiptainnviðum, virkjunum og öðru, með tilliti til möguleika á hryðjuverkum, eftir tilvikum hernaði og njósnum svo dæmi sé tekin.

Í þættinum er einnig rætt um björgunar- og viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar og annarra aðila hér á landi og margt fleira sem snýr að öryggis og varnarmálum þjóðarinnar.

Hægt er að horfa á bút úr viðtalinu hér fyrir ofan og áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert