Sjá má áttatíu prósenta fjölgun ef litið er til tilkynninga til Barnaverndar frá skólum í Reykjavík á fyrstu þremur mánuðum ársins. Sömuleiðis hefur tilkynningum um tilfelli þar sem barn beitir ofbeldi fjölgað úr fimmtíu til sextíu í tæplega hundrað á milli ára.
Þessu var greint frá í kvöldfréttum Rúv þar sem rætt var við Katrínu Helgu Hallgrímsdóttur, framkvæmdastýru Barnaverndar Reykjavíkur. Þar sagði hún fjölgunina vera áhyggjuefni en á fyrstu þremur mánuðum ársins fjölgaði tilkynningum almennt um tuttugu prósent á milli ára.
„Prósentulega séð er þetta svipuð aukning, ef ekki meiri, en í Covid-19 og jafnvel ef við leitum bara aftur til hrunsins,“ sagði Katrín í samtali við Rúv.
Þá greinir hún frá því að 97 tilkynningar hafi borist þar sem barn beitir ofbeldi sem jafngildi 64 prósent aukningu á milli ára.
Í stöðu sem þessari sé mikilvægt að vera vakandi til þess að hægt sé að bregðast við vandanum eins nálægt barninu sem um ræðir og hægt sé.