Tæplega 2.000 umsækjendur um alþjóðlega vernd dvelja nú í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, en stofnunin þjónustar umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en þegar Vinnumálastofnun tók við þjónustunni frá Útlendingastofnun um mitt síðasta ár voru um 700 umsækjendur búsettir í húsnæði ætluðu umsækjendum um alþjóðlega vernd.
„Aldrei hafa jafnmargir sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi en um þessar mundir,“ segir í tilkynningunni en það sem af er ári eru umsækjendur orðnir fleiri en á sama tíma í fyrra eða um 2.000 talsins. Að jafnaði hafa um 100 einstaklingar á viku sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því í janúar.
Flest fólkið kemur frá Venesúela og Úkraínu en fjöldi ríkisfanga er 49. Börn eru 20% hópsins.