Aðeins ein undanþága veitt

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir félagsfólk upplifa að það …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir félagsfólk upplifa að það sé minni virðing borin fyrir þeirra störfum. Mynd/BSRB

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir störf stuðningsfulltrúa ekki falla undir lög um verkfallsundanþágu og að það sé alfarið á ábyrgð sveitarfélaganna að sjá til þess að skilgreina hvaða þjónusta sé veitt í verkföllum, ekki starfsfólks í sumum af lægst launuðu stöðum samfélagsins. 

Boðað hefur verið til fundar á milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) hjá ríkissáttarsemjara núna kl. 15, en Sonja segir en langt á milli beggja aðila, þó þau reyni ávalt að fara bjartsýn inn í samningsviðræður. 

Hún segir báða aðila hafa fundað með hvor öðrum í vikunni og hlutirnir þokist því áfram þó enn sé langt í land. Að hennar sögn ganga verkfallsaðgerðir vel og engin verkfallsbrot hafa átt sér stað. 

Vangaveltur hafa legið uppi um hvort verkfallsaðgerðir hafi minni áhrif í sumarfríinu, en Sonja telur það ekki áhyggjuefni. Stigvaxandi þungi sé í aðgerðum og náist samningar ekki fyrir 5. júní muni starfsfólk leikskóla t.d. leggja alfarið niður störf í mánuð, en starfsfólk sundlauga leggur niður störf ótímabundið.

Ávalt neyðarúrræði

Áhrif verkfallsins á skólastarf og börn sem þurfa aukin stuðning í skóla, hafa sætt töluverða gagnrýni en stór hluti félagsmanna BSRB eru ófaglærðir stuðningsfulltrúar fyrir börn með sérþarfir. Foreldrar barna með sérþarfir standa því sum hver frammi fyrir því að þurfa að halda börnum sínum heima.

Þá hefur BSRB sérstaklega sætt gagnrýni fyrir að veita ekki verkfallsundanþágur til stuðningsfulltrúa barna í sérstaklega erfiðum tilfellum. 

„Verkföll hafa auðvitað áhrif á alla sem verða fyrir þjónustuskerðingu, það er liður í því, því miður.“ 

Hún segir verkföll ávalt vera neyðarúrræði og að undanþágur séu aðeins vera veittar í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur, en samkvæmt þeim eru þær aðeins veittar í tilfellum sem varða almannaöryggi og nauðsynlegt heilbrigði. Þessi störf falli ekki þar undir.

Börn sem þarfnast aukins stuðnings til að stunda nám, hafa …
Börn sem þarfnast aukins stuðnings til að stunda nám, hafa mörg hver þurft að vera heima vegna verkfalla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins ein undanþága veitt

Aðspurð hvort það varði ekki almannaöryggi eða nauðsynlegt heilbrigði að börn með sérþarfir geti sótt nám, segir Sonja það alfarið á ábyrgð sveitarfélaganna að sjá til þess.

Okkar fólk sem starfar í þessum störfum getur ekki borið ábyrgð á því“ segir Sonja. 

„Þetta fellur ekki undir þetta nauðsynlega heilbrigði sem er kveðið á um í tengslum við undanþágurnar samkvæmt lögum. En það eru auðvitað sveitarfélögin sjálf sem skilgreina hvaða þjónustu þau veita í verkföllum, en verða auðvitað að tryggja að það sé ekki verkfallsbrot.“ 

Sonja segir aðeins eina undanþágu hafa verið veitta, en hún snýr að starfsemi fyrir ungmenni með fatlanir sem var þegar á undanþágulista. Ekki hafði verið tekið tillit til þess að ungmennum sem þurfa á þjónustunni að halda hafði fjölgað og undanþágan var því veitt, til að endurspegla þann lágmarksfjölda starfsfólks sem þarf til að veita þjónustuna. 

Minni virðing borin fyrir þessum störfum

Mbl greindi fyrr í dag frá áhyggjum íbúa í Mosfellsbæ um hve litlar umræður virðist vera uppi í samfélaginu um kjaradeilur BSRB.

Sonja segir það góðan punkt. Almenn upplifun félagsfólks BSRB sé að lítil virðing sé borin fyrir þeirra störfum.  

„Þetta er að stórum hluta til störf þar sem konur eru í miklum meirihluta og eru með lægst launuðu störfum samfélagsins“ segir Sonja. 

Samstaða meðal foreldra og starfsfólks mikilvæg

Hún kveðst einnig hafa heyrt vangaveltur um hvort deilurnar hefðu hlotið meiri athygli hefðu aðgerðir farið fram í Reykjavík, en ekki öðrum sveitarfélögum. 

„Þá væri búið að óska eftir upplýsingum frá borgarstjóra, því það eru auðvitað þeir sem að bera ábyrgð þó þeir séu búnir að fela sambandinu samningsumboð sitt.“

Hún segir félagið hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá foreldrum og að samstaða sé áfram gríðarlega mikilvæg, ekki bara meðal félagsmanna, heldur einnig þeirra sem verða fyrir þjónustuskerðingu.

Saman þurfi þau að þrýsta á sveitarfélögin „til að ganga til samninga, til að leiðrétta þetta misrétti og lyfta lægstu laununum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert