Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri segir banaslysið sem varð við Arnarstapa fyrir helgi vera hræðilegt. Hann segir slys á þessu svæði vera mjög fátíð.
„Allt þetta svæði er varasamt. Menn þurfa að fara varlega alveg eftir strandlengjunni. Þetta er dramatískt og stórkostlegt landssvæði en þegar aðstæður eru svona eins og virðast hafa verið, rigning og þannig, þá getur þetta verið varasamt,” segir Arnar Már, spurður út í banaslysið og bætir við: „Þetta er bara hræðilegt slys". Hann tekur þó fram að hann viti annars lítið um hvað gerðist.
Karlmaður um sjötugt féll fram af hömrum skammt frá smábátahöfninni við Arnarstapa á fimmtudaginn. Hann var rútubílstjóri og var á ferðalagi á þessum vinsæla stað með hóp erlendra ferðamanna þegar hann lést.
Spurður út í slys við Arnarstapa í gegnum tíðina segir Arnar Má þau hafa verið mjög fátíð. „Það er dálítið langt síðan ég heyrði af slysi þar.”
Hann bendir á að víða sé þörf á úrbótum á ferðamannastöðum, enda kalli aukinn fjöldi ferðamanna á „aukinn fókus” þegar kemur að innviðum. Sumir staðir séu varasamir út frá náttúrunnar hendi á meðan úrbætur á öðrum stöðum snúist um hversu fljótt sé hægt að bregðast við ef eitthvað kemur fyrir.
„Þetta er eitthvað sem við erum alltaf að horfa í og gera það sem við getum til þess að stuðla að auknu öryggi ferðamanna. Við horfum fram á að sumarið verði svipað og það var á árabilinu 2017 til 2019 [varðandi fjölda ferðamanna] og ég myndi segja að við séum að mörgu leyti erum við betur undir það búin núna heldur en þá,” greinir hann frá og á þar við innviðina.
Hann segir Ferðamálastofu jafnframt vera í stöðugu sambandi við Slysavarnarfélagið Landsbjörg og lögregluna um úrbætur.