Frá og með 1. júní verður brúin yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Kinn einungis opin fólksbílum. Það er Vegagerðin sem greinir frá þessu í fréttatilkynningu. Verður þá vöru- og fólksflutningabifreiðum óheimilt að aka yfir brúna.
Verður þeim bifreiðum beint um Hringveg um Fljótsheiði og Aðaldalsveg. Mælir Vegagerðin með því að sem flestir vegfarendur fari þá leið sem er 5,5 kílómetrum lengri. Með fólksflutningabifreiðum er átt við bifreiðar sem taka fleiri farþega en átta.
Hafa þungaflutningar yfir brúna verið takmarkaðir en hún var styrkt í framkvæmdum sem áttu sér stað árin 2015 og 2016. Greinir Vegagerðin frá því að töluverðar steypuskemmdir hafi hins vegar orðið á brúnni að undanförnu og vegrið hennar verið orðið ótryggt.
„Brúin er komin til ára sinna en hún er síðan árið 1935. Ekki er unnt að gera við eða styrkja brúna nema með miklum tilkostnaði og tímafrekum viðgerðum. Því er brugðið á það ráð að takmarka umferð um brúna. Hámarkshraði verður áfram 30 km/klst. yfir brúna,“ ritar Vegagerðin.
Framkvæmdir við nýja brú yfir fljótið eru á dagskrá árið 2026 og er undirbúningur verksins í gangi. Spáir Vegagerðin því að sú verði tekin í notkun árið 2028 en reiknað er með því að þær takmarkanir sem hér eru kynntar verði í gildi þar til nýja brúin er nothæf.