Ernst & Young sýknað í Landsrétti

Kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons hf. í Helguvík.
Kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons hf. í Helguvík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Ernst & Young ehf. og Rögnvaldur Dofri Pétursson hafa verið sýknuð af kæru þrotabús Sameinaðs Sílikons hf., sem krafðist skaðabóta úr hendi fyrirtækisins vegna gerðar sérfræðiskýrslu.

Landsréttur staðfesti sýknudóm héraðsdóms á föstudag. Laut skýrslan að verðmæti greiðslu USI Holding B.V. fyrir 405.280.000 hluti í Sameinuðu Sílikoni hf. en greitt var fyrir hlutina með öllum hlutum í Geysi Capital ehf.

Sameinað Sílikon hf. hélt því fram að Ernst & Young ehf. hefði valdið tjóni þar sem greiðsla fyrir hlutaféð hefði verið ófullnægjandi og þá fjármuni hefði vantað í sjóði fyrrnefnda félagsins þegar það fór í þrot.

Landsréttur sló því föstu að matsgerð dómkvadds matsmanns, sem aflað var undir rekstri málsins í héraði, hefði ekki verið hnekkt og styddi þá málsástæðu Sameinaðs Sílikons að ekki hefði verið hugað af nægjanlegri kostgæfni að þeim forsendum sem lágu til grundvallar sérfræðiskýrslunni.

Sneru þær að rekstrarkostnaðarhlutfalli Geysis Capital og ávöxtunarkröfu en dómurinn taldi að það hefði mögulega leitt til ofmats á greiðslu sem innt var af hendi fyrir hlutabréfin í Sameinuðu Sílikoni. Þó hafði þrotabú félagsins ekki sýnt fram á skaðabótaskylt tjón og því var niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert