Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í Facebook-færslu veðurvefsins Bliku að djúp lægð nálgist nú landið, en gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir morgundaginn.
„Kalt loft vestan frá Hudsonflóa í Kanada berst í veg fyrir hlýrra og rakara sem ættað er af Atlantshafinu,“ segir Einar og bendir á að stefnumótið verður syðst á Grænlandi.
Úr verði nokkuð dæmigerð lægð, en hins vegar ódæmigerð fyrir árstímann, „því þegar líður á vorið dregur mjög úr líkum á stefnumóti sem þessu í hlutfalli við minni fyrirferð kalda loftsins“.
Einar segir að hvassast verði einkum um vestan- og norðvestanvert landið í eftirmiðdaginn.
„Þætti vart frásagnarvert að hausti eða á veturna, en síðari hluta maí eru slíkar lægðir fremur fáséðar,“ segir hann og bætir við að lægðin slái þó ekki út dýpri lægð sem fór austur með suðurströndinni 15. maí árið 2015.