Sérstakt málefni var tekið fyrir á síðasta fundi byggðarráðs Múlaþings, en þar var fjallað um auknar fjárveitingar til fimleikadeildar Hattar til að halda utan um 17. júní-hátíðarhöldin á Egilsstöðum, en venja er að félagið sjái um dagskrána.
Þröstur Jónsson, áheyrnarfulltrúi Miðflokks í byggðarráði, lagði fram tillögu þar sem hann fór fram á að þjóðsöngurinn „Ó, guð vors lands“ yrði sunginn að minnsta kosti einu sinni í athöfninni og þá helst við inngöngu Fjallkonunnar, enda væri það viðeigandi á þjóðhátíð landsins.
„Ástæðan fyrir því að ég lagði fram þessa breytingartillögu var að þjóðsöngurinn var ekki sunginn á 17. júní í fyrra. Ég hef nú stundum gantast svolítið með það, en eftir 17. júní í fyrra fengum við eitt það mesta skítasumar sem komið hefur hér í manna minnum. Ég vildi þá setja þann varnagla að þjóðsöngurinn yrði sunginn í ár á þjóðhátíðinni og skil ekki að það skaði nokkurn mann,“ segir Þröstur og bætir við að ekki væri verra ef veðrið yrði skaplegt í kjölfarið.
„En tillagan var felld með þremur atkvæðum og tveir sátu hjá,“ segir Þröstur. „Ég get ekki sagt nákvæmlega hvað fór fram á fundinum, en get þó sagt að um málið urðu nokkrar umræður. Það er eins og það sé eitthvað „púkó“ að syngja þjóðsönginn af því að guð sé nefndur. Ég veit ekki hvað á að segja annað, þótt ég vilji ekki fullyrða að það sé ástæðan.“
Þröstur segir að í fyrra hafi verið spilað lagið „Ísland er land þitt“ við inngöngu Fjallkonunnar og að það sé ágætis lag. „Ég spyr þó hvenær þjóðsöngurinn sé við hæfi, ef ekki einmitt á þjóðhátíðardegi Íslendinga?“