Eggert Skúlason
Þegar hann vaknaði eftir aðgerðina, sem var bæði flókin og erfið, kom læknirinn til hans þegar hann var nývaknaður. Hann potaði í meiðslin og sagði svo; „Þetta verður aldrei gott.“ Hann hafði rétt fyrir sér og Andrés keppti ekki aftur eftir þetta, þó hann hafi svo sannarlega reynt.
Andrés Guðmundsson kraftakarl er gestur Dagmála í dag. Hann ræðir fyrst og fremst um Skólahreysti, sem hann og Lára konan hans hafa haft veg og vanda af frá upphafi.
Hugmyndin kviknaði í Bylgjulestinni fyrir mörgum árum. Andrés setti þá upp keppnisbrautir sem hugsaðar voru fyrir fullorðna en þær fylltust alltaf af krökkum sem fannst þetta meiriháttar spennandi. Eftir meiðslin sem rústuðu ferlinum sló hann því til og byrjaði með Skólahreysti.
Í dag eru nánast allir grunnskólar landsins þátttakendur í þessari skemmtilegu keppnisgrein. Andrés smíðar sjálfur öll tækin og viðheldur þeim. Hann er farinn að finna fyrir aldrinum en heldur ótrauður áfram.
Hann er skemmtilegur og hreinskilinn og dregur ekkert undan. Ferillinn, bæði í kraftakeppnum og tilraun til að verða atvinnumaður í boxi, er krufinn í Dagmálum í dag.
Þátturinn er aðgengilegur í heild sinni fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.