Umfangsmikill fornleifauppgröftur fer nú fram í Árbæjarsafni sem hefur leitt í ljós minjar allt frá 10. öld fram á þá tuttugustu, eða allt til þess tíma er reglulegur búskapur í Árbæ lagðist af. Að þessu sinni beinist athygli rannsóknarinnar sérstaklega að bæjarhúsum frá 13.-17. öld og hafa gripir frá ýmsum tímabilum verið grafnir úr jörðu.
Fornleifarannsóknin hófst upphaflega árið 2016 og hefur allur sá fjöldi gripa sem komið hefur úr jörðu leitt í ljós að Árbær var vel búinn innfluttum varningi á 17. öld, sérstaklega í öllu því sem kom að borðhaldi.
Í fréttatilkynningu frá Borgarsögusafni er haft eftir Sólrúnu Ingu Traustadóttur fornleifafræðingi að rannsóknin hafi leitt ýmsar merkar heimildir í ljós umfram það sem er að finna í rituðum heimildum, en bæjarins er þar fyrst getið á 15. öld. Áhugasamir geta fylgst með framgangi uppgraftarins á opnunartíma Árbæjarsafns.