„Við, foreldrar, getum látið eins og háværasta fuglabjarg þegar kemur að umræðu um vöntun á leikskólaplássum en það heyrist varla píp í okkur þegar fólkið sem hugsar um börnin okkar bróðurpart dagsins stendur í kjarabaráttu,“ skrifar Ásthildur Kristín Björnsdóttir, íbúi í Mosfellsbæ og móðir þriggja barna á leik- og grunnskóla aldri í færslu á Facebook-síðu sinni í gær.
Í samtali við mbl.is segist Ásthildur hvetja fólk til að láta kjarabaráttu BSRB fólks sig varða og furðar sig á hve lítil umræða hefur verið um verkfall BSRB félagsmanna.
Hún segir fjölmiðla einnig mikilvægt verkfæri í baráttunni, en að henni hafi almennt þótt umfjöllun um málið lítil þá sérstaklega miðað við alla þá athygli sem kjarabarátta Eflingar við Samtök Atvinnulífsins hlaut.
Ásthildur segir skólastjórnendur leggja sig alla fram við að miðla upplýsingum áfram, en að lítið virðist þó vitað um framvindu málsins. Hún segir að mikilvægt sé að hafa hátt og beita þrýstingi á báða aðila í kjaradeilunni til að leysa málið sem fyrst.
„Ætti ekki að vera að knýja áfram annað fundarboð?“ spyr Ásthildur, en þegar viðtalið átti sér stað hafði enn ekki verið boðað til nýs fundar milli Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) og BSRB, en samkvæmt lögum þarf að vera fundur á tveggja vikna fresti. „Tvær vikur er allt of lítið“ segir hún og ítrekar mikilvægi þess að þrýsta á að málið verði leyst.
Boðað var til nýs fundar við skrif þessarar fréttar.
Ásthildur segir mikilvægt að BSRB og SNS finni sameiginlegan flöt til að finna lausn á málinu, því aðstæður eins og þær eru nú séu ekki viðunandi hvað þá til lengri tíma. „Þetta verður að vera samtal. Pínu eins og hjónaband, það verða að vera málamiðlanir.“
Ásthildur segir alla rútínu ruglast til á heimilum í kjölfar verkfallanna, en að sjálf sé hún sem betur fer í námi og eigi því auðveldara með að vera heima með börnunum svo maðurinn hennar geti unnið. „En ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta er fyrir einstæða foreldra.“
Heimilisrútína er þó engin dans á rósum að sögn Ásthildar, en mikið hnjask er á börnunum vegna verkfallsins og því ansi ruglandi fyrir þau. Dóttir hennar fer aðeins í leikskóla eftir hádegi og synir hennar tveir koma heim í hádeginu og borða, fara aftur í skólann og koma svo beint aftur heim þar sem frístundarstarf hefur verið lagt niður.
Hún ítrekar að hún standi með starfsfólki skólanna og finnist svo sannarlega mikilvægt að fólkið sem annist börn hennar fái viðunandi kjör.
„Mér þykir það vænt um starfsfólk skóla barnanna minna að mér finnst þurfa hafa hærra um þetta“ bætir hún við „Mér fannst ég knúin til að vekja athygli á þessu.“