Gular viðvaranir víða um land

Vindaspá klukkan 15 á morgun.
Vindaspá klukkan 15 á morgun. Kort/mbl.is

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir stóran hluta landsins á morgun. Viðvaranirnar taka í gildi í fyrramálið og gilda í sólarhring. 

Á vef Veðurstofunnar segir að varasamt ferðaveður verði. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Á miðhálendinu tekur í gildi viðvörun klukkan 6 í fyrramálið og stendur hún yfir í sólarhring. Spáð er suðvestan átt 18-23 m/s með hagl- eða slydduéljum og snörpum vindhviðum við fjöll. 

Klukkan 10 taka í gildi viðvaranir á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. Þar er spáð suðvestan átt 15-20 m/s með hagléljum- eða slydduéljum og snörpum vindhviðum við fjöll á Suðurlandi.

Klukkan 11 taka í gildi viðvaranir á Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum. Þar má búast við suðvestan átt 15-23 m/s með hagl- eða slydduéljum og snörpum vindhviðum við fjöll. 

Suðausturland og Norðurland

Á hádegi tekur í gildi viðvörun á Suðausturlandi þar sem búast má við suðvestan átt 18-23 m/s með skúrum eða hagléljum og snörpum vindhviðum við fjöll.

Klukkan 14 taka í gildi viðvaranir á Ströndum og Norðurlandi vestra. Búast má við suðvestan 18-23 m/s með hagl- eða slydduéljum og snörpum vindhviðum við fjöll.

Þá tekur í gildi gul viðvörun á Norðurlandi eystra klukkan 15 þar sem einnig er spáð suðvestan 18-23 m/s átt og snörpum vindhviðum við fjöll. 

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert