Hræðilegt þegar kjaradeilur ná svona langt

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga. Ljósmynd/Margrét Þóra

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga (SNS), segist vona að sættir náist þegar SNS og BSRB funda ríkissáttarsemjara kl. 15 í dag. Hún hefur áhyggjur af lítilli veitingu á undanþágum vegna starfa sem tengjast börnum með sérþarfir. Hún vonar að BSRB byrji að veita þær undanþágur ef verkfallið heldur áfram.

„Við höfum seinustu daga reynt að vinna að einhverjum tilboðum sem gætu leyst þessa deilu,“ segir Heiða í samtali við mbl.is.

„Við viljum fyrst og fremst semja við okkar starfsfólk og vonumst til að það sé samningsvilji BSRB-megin.“

Rík­is­sátta­semj­ari hef­ur boðað samn­inga­nefnd­ir BSRB og SNS á fund í dag klukk­an 15, sem fyrr segir. Heiða segir að SNS hafi verið að skoða allt sín megin til þess að komast rétt til móts við BSRB. 

Vonar að þau veiti undanþágur

BSRB hefur orðið fyrir nokkurri gagnrýni á seinustu dögum þar sem þau eru ásökuð fyrir að hafa ekki veitt undanþágur í einstaka tilvikum til þess að gæta þess að börn með sérþarfir fái þá þjónustu sem þau þurfa. Heiða segist vona að BSRB veiti þessar undanþágur ef deilurnar halda áfram.

„Þetta kom okkur á óvart og ef við horfum á sambærileg verkföll, eins og hjá Eflingu, þá hefur þetta nánast aldrei verið vandamál, ef það verður áframhald á þessu verkfalli, sem ég vona ekki, þá bregðast þau vonandi hratt og vel við því og veiti þessar undanþágur, því það er bara mjög mikilvægt fyrir þessa einstaklinga,“ segir Heiða en bætir við að hún telji þau mál munu hafa einhver úrslitaáhrif í deilunni.

Virðir rétt BSRB

„Það er alltaf hræðilegt þegar kjaradeilur ganga það langt langt að þær leiða til verkfalla. En það er alltaf réttur þeirra sem eru að semja og við virðum það,“ segir Heiða en hún vill meina að BSRB sé að óska eftir hlutum sem SNS geti ekki orðið við en þau SNS sé þó að reyna að brúa bilið.

„Aðilar hafa verið ósammála og að fara í verkföll er bara eitthvað sem þau töldu vera rétt. Þá er það bara þeirra réttur að fara í verkfall, og þá er það okkar að leysa,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert