Mannréttinda- og lýðræðisskifstofa og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð Reykjavíkurborgar gefa árlega út tölulegar upplýsingar um samsetningu íbúa borgarinnar á árinu á undan. Upplýsingar um kyn og margbreytileika eru hafðar í brennidepli og gefinn er út bæklingur sem nefnist Kynlegar tölur. Í ár var meðal annars beint sjónum að innflytjendamálum í Reykjavík.
Fram kemur að innflytjendur í Reykjavík á síðasta ári hafi verið 30.407 talsins. Þar af voru um 55% karlar eða 16.601, en konur 45% eða 13.806. Íbúar Reykjavíkur sem ekki eru innflytjendur voru 105.281. Rúmlega einn af hverjum fimm íbúum Reykjavíkur á síðasta ári var því innflytjandi, eða 22,4%.
Fjöldi íbúa í Reykjavík sem ekki eru innflytjendur hefur lítið breyst frá árinu 1996. Fjöldinn var þá 102.787 en árið 2022 aðeins tæpum 2,4% meiri. Árið 1996 voru skráðir 2.700 innflytjendur í Reykjavík sem voru þá 2,5% af heildinni. Árið 2022 voru innflytjendur rúmlega 11 sinnum fleiri í Reykjavík en árið 1996.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.