Leitar íslensks drengs sem faðir hennar bjargaði

Faðir Mögdu (t.v.), Magda og postulínsbjörninn sem íslenska fjölskyldan sendi.
Faðir Mögdu (t.v.), Magda og postulínsbjörninn sem íslenska fjölskyldan sendi. Ljósmynd/Aðsend

Hin pólska Magda Reszka leitar nú íslensks drengs sem faðir hennar bjargaði eftir að drengurinn féll í sjóinn í höfninni í Gdansk árið 1976 eða 1977 þegar hann var hermaður. Sagan af björguninni hefur verið í hávegum höfð á heimili Mögdu alla tíð en gjafir sem íslenska fjölskyldan sendi til Póllands hafa að hluta til staðist tímans tönn og eru vel varðveittar. Hún hefur þó engar upplýsingar í höndunum um íslensku fjölskylduna.

Magda er nú stödd á Íslandi í heimsókn hjá vinkonu sinni Olgu sem búsett er hér á landi. Í samtali við mbl.is segja vinkonurnar Mögdu hafa skort hugrekki þar til nú til þess að leita að drengnum en hún viti að föður sínum þætti vænt um að hún sé að leita.

„Faðir minn var alltaf að hjálpa fólki,“ segir Magda.

Bjóst ekki við að sögunni yrði dreift svona víða

Íslensk vinkona Mögdu hefur nú deilt sögu hennar á Facebook í þeirri von að drengurinn, sem væri nú yfir fimmtugu, myndi finnast. Færslunni, sem má sjá hér að neðan, hefur verið deilt um 480 sinnum.

Nokkrum árum eftir atvikið fann fjölskylda drengsins fjölskyldu Mögdu og sendi þeim póstkort og nokkra pakka. Í pökkunum voru meðal annars borðdúkur, postulínsbangsi og sápa en sápuna hélt Magda mikið upp á þar sem fjölskylda hennar glímdi við mikla fátækt. Hún segist einna helst muna eftir því hversu fallega sápan hafi verið skreytt.

Þær vinkonur grunar að fjölskylda drengsins hafi fundið föður Mögdu með því að leita til Rauða krossins á sínum tíma en það sé þó ekki vitað fyrir víst. Póstkortin hafi ekki lifað árin af svo engar upplýsingar sé að fá af þeim.

Töfrar og kraftaverk ef maðurinn myndi finnast

Spurð hvað það myndi þýða fyrir Mögdu að finna manninn segir Magda að það myndi vera risastórt kraftaverk, fullt af töfrum.

„Þetta væri eitt stórt, töfrandi merki og kraftaverk. Hér er maður sem að átti sér lengra líf þökk sé föður mínum. Þetta væru töfratengsl á milli mín og landsins,“ segir Magda.

„Magda átti ekki von á því að sagan kæmist í svona mikla dreifingu, það væri sönn ánægja að hitta þennan mann þó það væri ekki fyrr en eftir eitt ár. Okkur er alveg sama. Það er mikilvægast að vita að hann sé á lífi og muni eftir þessu atviki síðan hann var ungur drengur. Við erum svo hamingjusamar,“ segir Olga. Hún dásamar vinkonu sína í gríð og erg fyrir að taka skrefið og segja sína sögu og segist gífurlega stolt af henni.

„Faðir minn fylgist með hamingjusamur frá himnum,“ segir Magda en faðir hennar lést fyrir 25 árum síðan.            

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert