Myndskeið: Eddan í öllu sínu veldi

Edda, nýtt hús Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og Há­skóla Íslands, sem hafði gengið und­ir nafn­inu „Hús ís­lensk­unn­ar“, var vígt fyrir mánuði síðan. Tökumaður mbl.is, Kristófer Liljar Fannarsson, fór á staðinn og myndaði húsið. 

Hornsteinar arkitektar hönnuðu húsið.

Af því tilefni talaði blaðamaður við Eirík Rögnvaldsson, pró­fess­or emer­it­us í ís­lensku. Hann segir trúlegt að fólk muni bæta við greini við nafnið á Eddu í daglegu tali. Það sé ekkert að því, þvert á móti sé það vinalegt og hlýlegt.

„Mér finnst mjög trúlegt að það verði talað um Edduna og sjálfsagt verða einhverjir til að ergja sig yfir því en mér finnst það ástæðulaust,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is.

Harpa tónlistarhús er gjarnan kallað Harpan og eru misjafnar skoðanir á því hvort megi bæta greini við nafnið á tónlistarhúsinu. Eiríkur segir ástæðulaust að amast við slíku.

Eiríkur Rögnvaldsson.
Eiríkur Rögnvaldsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst það ekkert vandamál. Ég veit að aðstandendur Hörpu hafa amast við þessu og víðar, af því að notaður er greinir en mér finnst ekkert að því. Mér finnst það frekar vinalegt og hlýlegt að nota greini,“ segir Eiríkur.

„Við tölum um að ganga á Esjuna, enginn gerir athugasemdir við það. Það er löng hefð fyrir því að setja greini á sérnöfn í vissu samhengi, þó það sé frekar í óformlegu málsniði,“ segir Eiríkur um Edduna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert