Kosið var í nýja stjórn Ungra athafnakvenna (UAK) á aðalfundi félagsins í síðustu viku en ávallt er kosið til tveggja ára í senn.
Þær sem hlutu kjör eru: Bryndís Rún Baldursdóttir, Kamilla Tryggvadóttir, Sóley Björg Jóhannsdóttir og Ólöf Kristrún Pétursdóttir Blöndal. Frá fyrra starfsári sitja áfram þær Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir, Hugrún Elvarsdóttir og María Kristín Guðjónsdóttir.
María Kristín, framkvæmdarstjóri viðskiptaskrifstofu breska sendiráðsins, var einnig kjörin formaður félagsins fyrir starfsárið 2023-2024, að því er kemur fram í tilkynningu.
Þær tvær konur sem fengu næstflest atkvæði í kosningum til stjórnar verða því varamenn til eins árs. Það eru þær Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir og Sigríður Borghildur Jónsdóttir.
„Helsta markmið UAK er að stuðla að jafnrétti, hugafarsbreytingu og framþróun í samfélaginu. Félagið skapar vettvang fyrir konur á öllum aldri til að fræðast og efla hvor aðra. Með viðburðum sínum vill UAK hjálpa félagskonum að auka styrkleika sína og er markmiðið með hverjum viðburði að fylla þátttakendur eldmóði, sama hvort um sé að ræða námskeið, fyrirtækjaheimsóknir eða fræðslufundi. Síðastliðið starfsár hélt félagið samtals 17 viðburði ásamt því að halda úti samstarfi við Opna háskólann í Reykjavik, KVAN, Akademias og Dale Carnegie. Ný dagskrá verður kynnt haustið 2023,” segir í tilkynningunni.