Áslaug María Jóhannsdóttir, kennari við grunnskóla í Hafnarfirði, hefur áhyggjur af því að verkföll BSRB bitni verst á börnum með sérþarfir. Hún segir það vera fordómar í garð fatlaðra að BSRB hafi ekki veitt verkfallsundanþágur til stuðningsfulltrúa barna í sérstaklega erfiðum tilfellum.
Fyrir tæpri viku birti Áslaug færslu á Facebook þar sem hún harmaði það að ekki hafi fengist undanþágur frá BSRB fyrir vegna starfa sem tengjast börnum með sérþarfir. Sjálf á hún fimm ára gamlan son með CP-hreyfihömlun (cerebral palsy). Hann styðst við hjólastól og þarf aðstoð við nánast allar athafnir daglegs lífs.
Hún segir verkfallið hafi ekki haft bein áhrif á fjölskylduna, fyrir utan það að eldri sonur þeirra sé heima úr skóla hluta úr degi líkt og önnur börn en hún segir að ef hann væri í grunnskóla myndi hann missa þann nauðsynlega stuðning sem hann á rétt á á meðan á verkfallinu stendur.
„Þrátt fyrir að sonur okkar finni ekki fyrir verkfallinu, þar sem hann er enn í leikskóla, eru mörg önnur börn sem eru einmitt í þessari stöðu núna. Að vera send heim á meðan á verkfallinu stendur. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það því fötluð börn eða börn með sérþarfir sem þurfa að taka skellinn,“ segir Áslaug.
„Ég hef heyrt frá foreldrum annarra fatlaðra barna sem hafa sömu áhyggjur og ég. Áhyggjur þeirra snúa ekki einungis að því að foreldrar, sem missa nú þegar mikið úr vinnu vegna fötlun barna sinna, verði að vera heima heldur einnig, og miklu frekar, að því að börn þeirra upplifi höfnun og séu neydd til þess að vera heima á meðan vinir þeirra sækja skóla,“ segir hún.
Áslaug segir að þegar foreldrar barna með fötlun ásamt stjórnendum skóla hafi bent á þau brot á mannréttindum sem nú eiga sér stað ætti fólk að staldra við og endurskoða ákvarðanir sínar.
„Þegar fólk er tilbúið að halda slíkum verkfallsaðgerðum áfram, óbreyttum og án þess að veita undanþágur eða endurskoða útfærslu verkfallsins er um að ræða hreina og klára útilokun og fordóma í garð fatlaðra,“ segir hún.
„Fötluð börn eru ekki byrði og þeim á ekki að refsa fyrir fötlun sína.“
Áslaug segir að verkföllin hafi mikil áhrif á skólastarfið þar sem hún er kennari í grunnskóla í Hafnarfirði. Hún segir þó að hún og annað starfsfólk skólans, standi þétt við bakið á samstarfsfólki sem berst nú fyrir bættum kjörum.
„Því má ekki misskilja sem svo að gagnrýni mín sé á verkfallið sjálft, heldur afleiðingar þess á nemendur með sérþarfir,“ segir hún.
„Það þarf að gæta þess að ekki sé brotið á réttindum barna og það er engum blöðum um það að fletta að verkfallið bitnar mest á þeim börnum sem síst mega við því.“
„Samkvæmt formanni BSRB eru undanþágur einungis veittar í þeim tilvikum er varða almannaöryggi og almannaheil og þessi störf falli ekki þar undir. Undanþágur séu til þess að tryggja heilbrigði og annað slíkt,“ skrifar Áslaug í færslu sína. Hún segir við mbl.is að þetta sé algjör þversögn.
„Hvað eru réttindi barna og líðan annað en heilbrigði og velferð almennings? Að sama skapi er einnig mikil þversögn í því að BSRB kalli manna hæst að sveitarfélög mismuni starfsfólki og brjóti á réttindum þeirra á sama tíma og verið er að brjóta á réttindum fatlaðra barna og barna með sérþarfir,“ segir hún.
Áslaug segist hugsa að fólk sem ekki þekkir til sjái ekki endilega hvaða áhrif verkfall sem þetta hafi á börn með sérþarfir. Hún segir að það sé skiljanlegt en „á sama tíma er mikilvægt að hlusta á raddir þeirra sem málin snerta. Við sem eru foreldrar fatlaðra barna, verðum að stíga fram og vera talsmenn fyrir börnin okkar,“ segir hún að lokum.