Sumrinu slegið á frest

Búast má við áframhaldandi vonskuveðri næstu daga.
Búast má við áframhaldandi vonskuveðri næstu daga. mbl.is/ RAX

Vindasamt verður næstu daga og má búast við áframhaldandi úrkomu. Þá eru líkur á því að veðurviðvaranir, sem eru í gildi fram á miðvikudagsmorgun, verði framlengdar. Upplýsingafulltrúi Landsbjargar biðlar til fólks að sýna aðgát og festa niður lausamuni. Sérstaklega ætti að huga að sumarhúsgögnunum. 

Veður­stof­an gaf í morgun út gul­ar viðvar­an­ir fyr­ir stór­an hluta lands­ins. Viðvar­an­irn­ar taka í gildi í fyrra­málið og gilda í sól­ar­hring. 

Marcel de Vries, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að búast megi við áframhaldandi vonskuveðri næstu daga. Vindasamt verður á öllu landinu og úrkoma mikil.

Nokkuð rólegt verður frameftir degi í dag, segir Marcel, en úrkoma eykst að sunnan uppúr fjögurleytinu og dreifir sér um allt land í nótt. Einnig tekur að hvessa með kvöldinu.

Á morgun gengur síðan í suðvestan fimmtán til tuttugu og þrjá metra á sekúndu með skúrum og hagléli. Á norðvesturhluta landsins má búast við slydduéli. Þá verður veður heldur hægara og þurrara á norðausturhlutanum.

Ekki er útilokað að það bresti á með þrumuveðri á vesturhluta landsins, segir Marcel. 

Sumarhúsgögnin aftur inn

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar segir björgunarsveitina reiðubúna til þess að sinna útköllum. Þó verði ekki gerðar sérstakar ráðstafanir vegna veðursins næstu daga og útköll hafi verið fá hingað til.

Hann biðlar til fólks að sýna aðgát og festa niður lausamuni. Sérstaklega ætti að huga að sumarhúsgögnunum, sem margir eru eflaust nýbúnir að taka út, og koma þeim í öruggt skjól.

„Fólk er líklega komið úr vetrargírnum og farið að huga að öðru. En það er ástæða til að gera þessar ráðstafanir svo að það fari ekki allt á flug í rokinu. Vetrinum virðist ekki vera lokið ennþá,“ segir Jón Þór.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert