„Þetta var nánast dauðadómur“

Hátt í 400 manns nota lyfið Truvada sem er fyrirbyggjandi …
Hátt í 400 manns nota lyfið Truvada sem er fyrirbyggjandi meðferð við HIV smiti. AFP

Rúmlega 400 einstaklingar, aðallega karlmenn sem hafa mök við aðra karla, njóta svokallaðrar PrEP-meðferðar sem er fyrirbyggjandi lyfjagjöf við HIV-smitum. Lyfið hefur gefið góða raun, að sögn Magnúsar Gottfreðssonar, sérfræðings á smitsjúkdómadeild og prófessors hjá Landspítalanum. Um 70 karlmenn tóku lyfið árið 2018 þegar niðurgreiðsla þess hófst.   

PrEP-meðferðin felur í sér lyfjagjöf, en lyfið sem um ræðir heitir Truvada og er samblanda tveggja HIV-lyfja. Meðferðin er fyrirbyggjandi og býðst aðeins fólki sem er ekki smitað af HIV en þykir vera í áhættuhópi, til að mynda mönnum sem stunda óvarið samkynja kynlíf. 

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala.
Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Þeir sem njóta niðurgreiðslu meðferðarinnar hafa óskað eftir henni sjálfir og svara spurningalista sem skilgreinir hverjir eiga rétt á henni. 

„Það er einfaldlega meiri áhætta í þessum hópi [karlar sem stunda samkynja kynlíf] þegar horft er á gögnin í sögulegu samhengi yfir síðasta áratug,“ segir Magnús.   

Veiran mælist ekki í yfir 95% tilfella

Á fjórða hundrað einstaklinga koma reglulega til eftirlits og meðferðar á göngudeild LSH vegna HIV-smita. Að sögn Magnúsar mælist veiran ekki í blóði yfir 95% þeirra sem njóta lyfjagjafarinnar. Sá greinamunur hefur verið gerður á HIV-smiti almennt og alnæmi er að þegar gildi hjálparfruma fer undir ákveðin mörk er fólk skilgreint með alnæmi. 

„Þetta var nánast dauðadómur. Í dag eigum við góð lyf og í dag geta margir greindir með alnæmi lifað nokkuð góðu lífi um árabil svo lengi sem þeir eru á virkri meðferð,“ segir Magnús. 

Sambærilegar lífslíkur 

Hann segir að lífslíkur þeirra sem greinst hafa með alnæmi eða HIV séu sambærilegar við aðra. „Horfur þessa hóps er ekkert síðri en annarra. Sérstaklega þegar horft er til þess að þeir eru í það þéttu eftirliti og það er verið að fylgjast náið með blóðprufum og öðru. Það gerir það að verkum að fylgst er nánar með öðrum kvillum,“ segir Magnús. 

Engin veira mælist í yfir 95% þeirra sem sem njóta …
Engin veira mælist í yfir 95% þeirra sem sem njóta lyfjagjafar hérlendis. AFP


21 greindist með HIV-smit árið 2021 þegar síðustu tölur voru gefnar út hjá embætti landlæknis en á síðustu árum hafa 20-30 smit greinst að meðaltali ár hvert hér á landi. Hluti þeirra er vegna innflytjenda en HIV-smit eru tilkynningaskyld við flutning til landsins.

Einstaklingar af 50 þjóðernum njóta meðferðar á göngudeild. Rúmlega helmingur smitaðra er með erlent ríkisfang samkvæmt tölum hjá embætti landlæknis.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert