Samningafundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk fyrr í kvöld. Ekkert þokaðist áfram í viðræðunum og segir formaður BSRB langt vera á milli samningsaðila.
„Niðurstaðan var að sáttasemjararnir sjá ekki tilefni til þess að boða annan fund, staðan er svolítið óbreytt,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB í samtali við mbl.is.
Hún segir mikilvægt að samningshliðar eigi í virku samtali í aðstæðum sem þessum, þegar umfangsmiklar aðgerðir eru hafnar.
„Það er auðvitað þannig að við eigum í samtali, en því miður er bara mjög langt á milli okkar,“ segir Sonja.
Þegar vikið er að þeim útreikningum SÍS að kröfur BSRB um greiðslu fyrir þessa þrjá mánuði sem um ræðir muni kosta sveitarfélögin átta hundruð milljónir, eins og Rúv greindi frá, segir Sonja töluna vera setta fram til þess að gefa það til kynna að upphæðin sé óyfirstíganleg.
„Hins vegar er það þannig að þetta eru 128 þúsund krónur að meðaltali og þetta væri þá til þess að leiðrétta þessa þrjá mánuði sem standa út af. Við áætlum það miðað við þessar upplýsingar sem við höfum að þetta væri um 0,3 prósent af heildarlaunakostnaði sveitarfélaga. Sem að sýnir að þetta eru ekki stórar upphæðir sem um ræðir og hefði raunverulega ekki átt að þurfa að koma til verkfallsaðgerða til þess að knýja fram þessa kröfu,“ segir Sonja.
Launahækkun sem gerð hafi verið hjá hluta starfsmanna sveitarfélaga 1. janúar sé að berast félögum BSRB um tilboð á hækkun frá 1. apríl. Útrýma þurfi þessari mismunun í launum og þurfi að finna einhverja leið til þess, hvort sem það sé afturvirkt, með eingreiðslu eða öðrum leiðum.
Helstu kröfur BSRB segir Sonja verið þríþættar, að leiðrétta mismunun varðandi laun fyrir þessa þrjá mánuði, lyfta lægstu launum og þeirra sem starfa í leikskólum með þjónustu við fatlað fólk og jafna greiðslur til sjóða stéttarfélaganna.
Spurð um næstu skref segir Sonja meiri þunga færast í aðgerðirnar strax á morgun.
„Á morgun eru um 1.500 af okkar félagsmönnum að leggja niður störf í tíu sveitarfélögum og næstu helgi þá verða þetta orðin átján sveitarfélög og bætast fleiri störf undir. Svo í júní, þá verða þetta orðin 29 sveitarfélög og í kringum 2.500 manns sem eru að leggja niður störf. Það eru næstu skref ef ekki verður samið,“ segir Sonja.
Hún segist að sjálfsögðu vona að samið verði hratt og örugglega en verkfallsaðgerðir séu algjört neyðarúrræði.