Á bilinu 6 til 7 þúsund farþegar skemmtiferðaskipanna Norwegian Prima og Aida Luna þræða nú götur Akureyrar. Guðný Ketilsdóttir, verslunarstjóri Pennans Eymundsson, segir það sannarlega setja svip á bæjarbraginn þegar svo margir farþegar koma inn í sveitarfélag sem telur um 20 þúsund íbúa. Hún segist hafa gert ráðstafanir vegna tíðra koma skemmtiferðaskipa í sumar, sem felst einkum í því að hafa vel mannað í verslunum til að bregðast við öllum mannfjöldanum. Guðný rekur einnig minjagripaverslunina The Viking í Hafnarstræti.
Guðný segir að sumarið sé sannarlega hafið á Akureyri með komu skemmtiferðaskipanna og sé fín innspýting inn í atvinnulífið. Fyrir utan hið hefðbundna, svo sem skipulagðar skoðunarferðir og hvalaskoðun, hafi skipsfarþegar líka lausan tíma sem nýttur er til að þræða verslanir í miðbænum eða til að skoða Akureyrarkirkju. Guðný kannast lítið við neikvæð áhrif af skipakomunum og vilji fólk komast úr ferðamannaösinni sé auðvelt að finna frið og ró utan miðbæjarins.
Annað skipanna sem nú liggur í Akureyrarhöfn er hið risavaxna Norwegian Prima sem nefnt var við hátíðlega athöfn við Skarfabakka 27. ágúst í fyrra. Söngkonan Katy Perry var viðstödd og söng fyrir gesti athafnarinnar í Hörpu. Þetta er í fyrsta sinn sem Norwegian Prima kemur til Akureyrar.