Ályktun um greiðar, vistvænar og öruggar samgöngur milli höfuðborgarsvæðis og Suðurnesja hefur verið samþykkt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skipulagsnefndum svæðanna en fyrr í maí funduðu þær í fyrsta skipti. Til umræðu á fundinum voru sameiginleg viðfangsefni og hagsmunamál til að efla samstarf á milli svæðanna.
Í tilkynningunni kom fram að nefndirnar væru sammála um að lífsgæði og samkeppnishæfni svæðanna grundvallist á góðum samgöngum fyrir atvinnulíf, gesti og íbúa. Ríkisstjórnin var þá hvött til að beita sér fyrir bættum samgöngum svæðanna, með sérstaka áherslu á ákveðin mál.
Meðal þeirra mála voru að staðið yrði við fyrirliggjandi áform um aðskilnað akstursleiða á Reykjanesbraut milli þéttbýlissvæðanna og að svæðin yrðu tengd saman með tíðum, aðgengilegum og gæðamiklum samgöngum. Þá var einnig lögð áhersla á að skapa nýjar leiðir til að komast til og frá Keflavíkurflugvelli, ýmist með öruggum hjólaleiðum eða aðgengilegri almenningssamgöngum.
Í ályktuninni kom einnig fram að mikilvægt væri að tryggja öryggi samgönguinnviða milli svæðanna með tilliti til almannavarna, veðurs og náttúruvár.