Gul viðvörun hefur litað vordag þennan sem nú er að kvöldi kominn. Ýmis foktjón urðu á bílum, tré féllu og trampólín gerðu sig líkleg til hreyfingar. Ekki var þó talin þörf á að kalla björgunarsveitir á vettvang.
Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, engar sveitir hafi verið kallaðar út vegna veðurs.
Gul viðvörun verður áfram í gildi víða um land á morgun þar til um klukkan 18.00 en þá á veðrið að vera liðið hjá.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir lítið af tilkynningum hafa borist til þeirra í dag vegna tjóna eða lausamuna. Þó er víst að einhver tjón hafa orðið á bílum í rokinu í höfuðborginni.
Hvað flug varðar hefur Isavia hvatt ferðalanga til þess að fylgjast vel með upplýsingum en möguleiki er á seinkunum á flugi Icelandair fyrripart dags. Þá verður ákvörðun tekin um innanlandsflug í fyrramálið.