Öllu innanlandsflugi sem og sjö flugferðum Icelandair til Evrópu og Bandaríkjanna seinnipartinn hefur nú verið aflýst vegna veðurs. Þá ræðst flug morgundagsins af því hvernig mun ganga að taka á móti vélum nú síðdegis og snúa þeim við en í flestum tilfellum hefur millilandaflug dagsins verið fært þar til síðar í kvöld.
„Afgreiðsla á Keflavíkurflugvelli miðar við fimmtíu hnúta hámark, fimmtíu hnútar eru í kringum 25 metrar á sekúndu. Ef veðrið fer yfir fimmtíu hnúta er erfitt að afgreiða á Keflavíkurflugvelli. Nú var spáin þannig að það var vel yfir fimmtíu hnúta allaveganna til sex þannig við ákváðum að fresta flugi frá Evrópu þannig það lendi eftir sex. Svo eru flugvélarnar sem áttu að sinna flugferðunum okkar síðdegis, það verður seinkun á þeim vegna þess að það eru sömu vélar sem eru að sinna því, til Ameríku og fleiri áfangastaða. Mest er þetta Ameríkuflug en það voru einnig þarna síðdegisflug til Evrópu,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við mbl.is.
Í flestum tilfellum hafi flugi aðeins verið seinkað til kvöldsins. Í þeim tilfellum sem þurft hafi að aflýsa hafi það snúist um afgreiðslutíma flugvalla erlendis.
„Það eru sjö ferðir nú í kvöld sem þarf að aflýsa vegna afgreiðslutíma á flugvöllum erlendis. Þá er bara búið að loka og ekki hægt að afgreiða flug þar á ákveðnum áfangastöðum,“ segir Guðni.
Flugfélagið sé í samskiptum við farþega sem að eigi flug á morgun og hvetur hann ferðalanga til þess að fylgjast vel með tölvupósti og smáskilaboðum frá flugfélaginu.
Millilandaflug morgundagsins ráðist af því hvernig gangi að taka á móti vélum og snúa þeim við nú í kvöld. Búast megi þó við einhverjum seinkunum, að minnsta kosti fyrripart dags á morgun.
Hvað varðar óhappið í Frankfurt, þar sem stigabíll keyrði á vél Icelandair segir hann það ekki hafa haft keðjuverkandi áhrif á annað flug. Veðrið hafi miklu meiri áhrif á flugáætlunina. Áhrifin hafi verið mest fyrir farþegana um borð í vélinni en lagfæringin hafi ekki tekið langan tíma.