Faxaflóahafnir hafa gripið til aðgerða til að verja skip og mannvirki fyrir óveðrinu sem gengur yfir í dag. Samkvæmt Gunnari Tryggvasyni hafnarstjóra hefur norska skemmtiferðaskipið Viking Saturn verið fært um eina legu til að vera í betra vari þegar veðrið brestur á. Búast menn við að hamagangurinn verði hvað mestur um klukkan 17 í dag.
Sömuleiðis hafa gámar og loðnunót verið sett umhverfis komutjöld á hafnarbakkanum til að verja þau fyrir óveðrinu. Farþegar mega eftir sem áður fara um borð í skipið en töf gæti þó orðið á því. Flestir nýir farþegar eiga að koma með flugi í dag og búist er við röskun og seinkun á flugi sem hefur áhrif á komu þeirra.
Gunnar sagði viðbúnaðinn nú taka mið af óveðrinu sem gekk yfir landið síðla í september á síðasta ári, sem var eitt hið versta nokkurn tímann í septembermánuði og varð þá töluvert tjón.