Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra kynnti minnisblað um sjónarmið Almannavarna um samgöngumál á Austfjörðum fyrir ríkisstjórninni á föstudag. Hann segir í samtali við mbl.is að forgangsraði þurfi byggingu svokallaðrar Fjarðaleiðar á Austfjörðum í stað svokallaðra Seyðisfjarðargangna á milli Seyðisfjarðar og Héraðs.
„Við vorum bara að vekja athygli á því útfrá síðustu atburðum á Austfjörðum hversu mikilvægt það er í framtíðarvegagerð á svæðinu að hafa í huga forgangsröðun í þágu öryggismála,“ segir Jón og vísar þar til snjóflóða sem féllu á Austfjörðum í lok mars. Þá minnist hann einnig á skriðuföllin á Seyðisfirði í desember árið 2021.
Erfiðlega gekk að flytja utanaðkomandi björgunarfólk í Neskaupstað er flóðin féllu í mars vegna ófærðar.
„Við erum bara að benda á það að ef að forgangsraðað væri í þágu þessara mála að þá væri skynsamlegra að fara fyrst svokallaða Fjarðaleið í gangnagerðinni.“
Er þar hugmyndin sú að svokölluð T-göng verði lögð frá Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð, frá Mjóafirði yfir í Neskaupstað í Norðfirði og frá Mjóafirði í Fagradal.
„Þá ertu komin með tengingu við sjávarmál fyrir neðan snjólínur – greiða tengingu á milli allra fjarða. Það er ljóst að ef slík göng hefðu verið komin þarna þá hefðum við átt mun auðveldara með að geta mögulega komið björgunarliði í Neskaupstað eða niður á firði hvar sem var.“
Jón segir að sem betur fer voru mannslíf ekki í húfi í snjóflóðunum í mars, „en við vitum það að í svona flóðum þá er tíminn mjög krítískur þegar kemur að björgun ef að fólk er í flóðunum“.
Hann segir grundvallaratriði að utanaðkomandi björgunarfólk komist sem allra fyrst að íbúabyggðum.
„Vegna þess að áhrifin á byggðirnar geta verið með þeim hætti að allt björgunarstarf á vettvangi er auðvitað bara takmarkað út frá því. Þannig að við vorum bara að vekja athygli á þessu sjónarmiði Almannavarna varðandi þær stórframkvæmdir sem eru fyrirhugaðar fyrir austan.“
Þið mynduð þá vilja að innviðaráðuneytið settu Fjarðaleið í forgang?
„Við viljum að það sé horft til þessa þáttar, já. Alveg endilega. Menn meti þetta þá í þeirri forgangsröðun sem að þarf að fara fram.“
Jón segir að lokum að fólk sé oft fljótt að gleyma, en um náttúruvá sé að ræða sem hefur fylgt þjóðinni í aldir.
„Við höfum verið minnt á það hressilega nú undnafarið og þá koma þessi sjónarmið upp þegar við sátum föst með allt utanaðkomandi björgunarlið á Héraði.“