Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastadæmis hafa sent frá sér tilkynningu þar sem furðu er lýst yfir þeirri hugmynd sem nýverið var sett fram í tillögu stýrihóps á vegum Sorpu um að skerða land Kirkjugarðsins í Leirdal í Kópavogi til að koma þar fyrir endurvinnslustöð.
„Tillagan hefur vakið mikil og sterk viðbrögð og fjöldi fólks hefur haft samband við kirkjugarðanna til að lýsa áhyggjum sínum.
Mikilvægt er að árétta að ekkert formlegt erindi vegna þessa hefur borist til stjórnar Kirkjugarðanna frá starfshópnum og er hér því aðeins um að ræða tillögur starfshóps SORPU að ræða.
Ekki stendur til að skerða land Kópavogskirkjugarðs undir neina aðra og óskylda starfsemi enda mun hann gegna stóru hlutverki í framtíðaráformum Kirkjugarða Reykjavíkur,“ segir í tilkynningu.