Lögreglunni á lögreglustöðinni á Hverfisgötu var í þrígang tilkynnt um fólk í annarlegu ástandi.
Í einu tilvikanna fór lögreglan með sjúkrabifreið á staðinn vegna vímuástands viðkomandi. Málin voru leyst án íþyngjandi aðgerða, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Í sama umdæmi lögreglunnar var ökumaður handtekinn eftir snarpa eftirför grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og fleiri umferðarlagabrot.
Sömuleiðis voru maður og kona handtekin vegna gruns um akstur undir áhrifum og þjófnað.
Í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ voru afskipti höfð af manni vegna vörslu fíkniefna og brots á vopnalögum. Málinu lauk með skýrslutöku á vettvangi.
Tilkynnt var um umferðaróhapp í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Ein bifreið var óökuhæf á eftir og urðu smávægileg meiðsli á fólki. Sjúkrabifreið var send á staðinn.
Einnig var tilkynnt um að ungmenni hefðu verið með ólæti við verslunarmiðstöð. Ekki var gripið til aðgerða en umgengni þeirra var slæm.
Tilkynnt var um krakka á skellinöðrum í utanvegaakstri í umdæmi lögreglunnar í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ. Lögreglunni tókst ekki að hafa uppi á þeim.