„Ég geri ráð fyrir að hið opinbera ætli sér þarna að passa upp á lífið verði mögulega ekki of flókið. Það er ekkert nýtt en einfaldlega vond rök.“
Þetta segir Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í færslu á Facebook þar sem hún gagnrýnir frumvarp Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um um tæknifrjóvganir. Hildur segir að í frumvarpi ráðherra sé að finna „afskaplega vonda og gamaldags reglu“ sem hún eigi erfitt með að trúa að hafi ratað inn í annars ágætt frumvarp.
„Ég hef fagnað einlægt áformum ráðherra um að koma fram með stjórnarfrumvarp sem afnemur þá ógeðfelldu reglu að neyða fólk til að eyða fósturvísum sínum eftir skilnað eða andlát. Ég hafði enda þegar lagt fram frumvarp þess efnis, þó að mitt frumvarp gengi lengra bæði varðandi það að afnema kröfu um staðfesta sambúð sem og að opna fyrir gjöf á fósturvísum,“ segir Hildur.
„En nú sé ég að í endanlegu frumvarpi ráðherra er í fyrsta lagi sú krafa gerð að það séu einungis konur sem megi nýta sameiginlega fósturvísa og það sem meira er ætlar ríkið að gera þá kröfu að þær megi eingöngu nýta þá ef þær eru einhleypar! Það er hreint út sagt fáránlegt og veldur mér miklum vonbrigðum.“
Hildur útskýrir að þrátt fyrir að fólk sé sammála um að nýta þann fósturvísi sem skapaður var þeirra á milli þá sé það í öllum tilvikum bannað að nýta hann ef annar aðilinn er kominn í annað samband.
„Þrátt fyrir að það geti skapast alls konar flækjur og jafnvel flestir kjósi að leyfa ekki notkun fósturvísa í þeim aðstæðum þá er vont að ríkið ætli með þessu að ákveða slíkt fyrir allt fólk í öllum aðstæðum. Vel er hægt að búa svo um hnúta að staða og réttindi allra viðkomandi verði alveg skýr,“ segir Hildur.
„Nokkurra áratuga saga löggjafar um tæknifrjóvganir er lituð af því að ríkið var sí og æ að leggja steina í götu fólks með svipaðri röksemdafærslu. Allt frá því að hvorki samkynhneigðir né einhleypir máttu undirgangast tæknifrjóvgun yfir í að systir konu mátti ekki gefa henni egg. Allt því ríkið hafði áhyggjur af því að það væri of flókið. Það er vont að nú þegar við höfum smám saman fært löggjöfina til betri vegar dúkki aftur upp kollinum óþarfa forræðishyggja af hálfu ríkisins þegar við eigum einfaldlega að gefa fólki frelsi til að vera treyst fyrir eigin ákvörðunum.“
Rétt er að geta þess að Hildur lagði síðastliðið haust sjálf fram frumvarp um tæknifrjóvganir. Það frumvarp er enn til meðferðar á þingi. Hún er þessa dagana í fæðingarorlofi eftir að hafa eignast barn með aðstoð tæknifrjóvgunar.