Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun fara í opinbera heimsókn til Kanada á næstunni þar sem hann mun kynna árangur Íslendinga á sviði máltækni. Kanadamenn hafa sýnt áhuga á því hvernig eigi að sjá til þess að tungumál lifi af.
Þetta sagði hann í umræðu á Nýsköpunarviku 2023 sem er haldin í Grósku í vikunni. Safa Jemai, stofnandi og forstjóri Víkonnekt, ræddi þar við Guðna um íslensku, gervigreind og máltækni, ekki síst mállíkanið ChatGPT. Umræðan fór hins vegar fram á ensku enda margir gestir sem koma erlendis frá.
Forsetinn hóf umræðuna á því að bjóða alla gesti velkomna og skaut því inn að hann vonaði að gestir erlendis frá sæju sér fært að njóta íslenska sumarsins. Jemai og Guðni töluðu um að það væri mikilvægt að nýta tæknina til þess að viðhalda íslenskunni.
Forsetinn kom síðan að því að Kanadamenn hafi sýnt áhuga á framförum íslendinga á sviði máltækninnar. Þar með talið átak Íslendinga um að safna hljóðbrotum frá landsmönnum og samstarf stjórnvalda við bandaríska gervigreindarfyrirtækið ChatGPT.
„Það vill svo til að ég er á leiðinni í opinbera heimsókn til Kanada,“ segir hann. „Við munum ræða þetta þar. Þau höfðu áhuga á að læra af okkur hvernig á að sjá til þess að tungumál lifi af í hnattvæddum heimi.“
Franska og enska eru tvö opinber tungumál Kanada, en þar að auki er fjöldi indíánamála talaður. Þar á meðal eru mörg mál talin vera í útrýmingarhættu. Forsetin sagði hins vegar ekki hvaða tungumál í Kanada um væri að ræða.
„Við vorum einnig með ráðstefnu fyrir nokkrum vikum þar sem fjallaða var um tungumál í nútímanum. Þar voru sendierindrekar fá Nýja-Sjálandi, Maóríar, sem vildu vita hvernig við erum að þokast áfram í þessum málum,“ segir Guðni.
„Við Íslendingar erum kannski ekki með minnimáttarkennd en okkur líkar við það þegar aðrar þjóðir muna að við séum til,“ segir hann og bætir við að það sé aukakostur að árangur stjórnvalda á þessu sviði séu að vekja athygli og áhuga erlendis.
Guðni segist ekki líta undan þeim áhættum sem gætu fylgt þróun gervigreindar. Hann segir þó að það sé mikilvægt að nýta tæknina svo að tungumálið fái að dafna.
„Ég er fullmeðvitaður um það að það geta blasaðvið erfiðar siðferðisspurningar vegna ChatGPT og við erum ekki blind fyrir því. Ekki nema við sjáum til þess að íslenska þrífst á tækniöldinni mun hún ekki vera tungumálið sem við notum daglega í þessu landi,“ segir Guðni.