Stigabíll keyrði á flugvél Icelandair á Frankfurt flugvelli í dag og fluginu seinkað.
Farþegar voru komnir um borð í vélina, en hafa farið frá borði á meðan gert er við skemmdina.
Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir skemmdina smávægilega en að fluginu sé seinkað þangað til viðgerð er lokið. Guðni áætlar að viðgerðin taki stutta stund en segir viðgerðarmenn bíða eftir varahlut fyrir vélina.
Fluginu gæti þó seinkað enn frekar, en Icelandair segja í tilkynningu á vef sínum að búast megi við seinkunum vegna slæmrar veðurspár í Keflavík síðdegis í dag. Gulum veðurviðvörunum er spáð um land allt í dag, að Austfjörðum undanskildum.