Kvörtuninni vísað frá í annað skipti

Kvörtun Ungmennafélags Íslands vísað frá.
Kvörtun Ungmennafélags Íslands vísað frá. Ljósmynd/UMFÍ

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur í annað skipti staðfest þá ákvörðun Neytendastofu að vísa frá kvörtun Ungmennafélags Íslands yfir notkun Landssambands æskulýðsfélaga á auðkenni sínu.

Ungmennafélag Íslands leitaði upprunalega til Neytendastofu haustið 2020 vegna notkunar Landssambands æskulýðsfélaga á auðkenninu Landssamband ungmennafélaga. Kvörtunin byggðist á áhyggjum ungmennafélagsins um að notkun landssambandsins á auðkenninu væri til þess fallin að neytendur og aðrir myndu rugla saman starfsemi þessara tveggja félagasamtaka.

Í desember 2020 ákvað Neytendastofa að taka erindi Ungmennafélags Íslands ekki til meðferðar og kærði ungmennafélagið þá ákvörðun til áfrýjunarnefndar neytendamála. Úrskurður nefndarinnar var að staðfesta ákvörðun Neytendastofu. Í niðurlagi úrskurðarins kom fram að Neytendastofa hefði vítt svigrúm til mats á því hvort hefja skyldi rannsókn máls og þar sem hún hafði ekki metið málið brýnt væru ekki skilyrði fyrir áfrýjunarnefndina til að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Önnur tilraun

Málið fór í maí inn á borð umboðsmanns Alþingis. Mæltist hann til þess að beiðni landssambandsins um að breyta nafni sínu í Landssamband ungmennafélaga yrði tekin upp að nýju eftir að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra synjaði sambandinu um þessa breytingu.

Ungmennafélag Íslands leitaði að nýju til Neytendastofu vegna notkunar Landssambands æskulýðsfélaga á framangreindu auðkenni í júní í fyrra. Erindi ungmennafélagsins byggði í megindráttum á því að notkun landssambandsins á umræddu auðkenni væri til þess fallin að starfsemi þess væri ruglað saman við starfsemi Ungmennafélags Íslands og færi því í bága við lög sem varða viðskiptahætti og markaðssetningu. Ungmennafélagið krafðist þess að Neytendastofa bannaði Landssambandi æskulýðsfélaga að nota auðkennið í starfi sínu.

Ákvörðun Neytendastofu var að taka erindi ungmennafélagsins ekki til meðferðar og byggði hún á því að ekki væru nægar ástæður til rannsóknar málsins. Kom þar aftur fram að Neytendastofa hefði svigrúm við mat á því hvort taka beri mál til rannsóknar en einnig að stofnunin léti sig ekki varða mál sem snerta neytendur einungis með takmörkuðum hætti eins og til dæmis viðbótarvernd auðkenna. Kærði Ungmennafélag Íslands þá ákvörðun til áfrýjunarnefndar neytendamála.

Áfrýjunarnefndin staðfesti frávísun Neytendastofu á þeim grundvelli að þau atriði sem Ungmennafélag Íslands vísaði til í kæru væru ekki þess eðlis að hróflað yrði við mati stofnunarinnar.

Lesa má ákvörðunina í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert