Útlit er fyrir vaxandi spennu á íbúðamarkaði enda heldur framboð ekki í við eftirspurn. Þá ekki síst í félagslega kerfinu.
Biðlisti eftir hagkvæmum íbúðum hjá Bjargi íbúðafélagi hefur lengst um 50% á einu ári og eru nú 3.000 manns á biðlista. Hver íbúð hjá Bjargi kostar um 45 milljónir í byggingu og myndi því kosta 135 milljarða að útvega fólkinu á biðlistanum nýjar íbúðir.
Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs segir aðspurður að biðlistar eftir hagkvæmum íbúðum haldi áfram að lengjast að óbreyttu.
Við þetta bætist aukin húsnæðisþörf vegna aðflutnings fólks til landsins. Árið í fyrra var metár í því efni en þá fluttust 10.300 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því. Gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir því að fjöldinn verði ekki minni í ár.
Hagfræðingar ASÍ víkja að þessari þróun í nýrri hagspá. Að mati þeirra hefur ekki tekist að stuðla að auknu framboði til að mæta lýðfræðilegri þróun og aukinni fólksfjölgun. Það misræmi eigi þátt í sögulega háu íbúðaverði síðustu misseri. Útlit sé fyrir að draga muni úr uppbyggingu íbúða á næsta ári og því séu minnkandi líkur á að áform um 35 þúsund nýjar íbúðir á næstu 10 árum rætist.
„Því er hætta á að framboðstregða muni áfram setja þrýsting til hækkunar leigu- og eignaverðs,“ skrifa þeir.
Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs hjá HMS, tekur í sama streng og segir skort á lóðum hamla uppbyggingu íbúða. Það birtist meðal annars í því að stofnframlög til að byggja hagkvæmt húsnæði hafi ekki verið fullnýtt í fyrra.
Ef jafnmargir flytja til landsins í ár og í fyrra gæti íbúafjöldinn farið í 400 þúsund í fyrsta sinn í sögu landsins. Það yrði fjölgun um 24 þúsund manns frá ársbyrjun 2022 sem aftur kallar á yfir 10 þúsund íbúðir. Þótt manntal Hagstofunnar 2021 bendi til að íbúafjöldinn kunni að vera ofmetinn er engu að síður ljóst að íbúum landsins fjölgar ört.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.