Skatturinn á árshátíð í gamalli dýflissu á Möltu

Kynlegir kvistir á árshátíð Skattsins á Möltu.
Kynlegir kvistir á árshátíð Skattsins á Möltu. Ljósmynd/Aðsend

Fræðslu- og árshátíðarferð starfsmannafélags Skattsins fór fram á Möltu um helgina. Sara Rakel Hinriksdóttir, formaður starfsmannafélagsins, segir ferðina hafa heppnast einstaklega vel. Alls fóru 278 starfsmenn í ferðina, en auk þeirra var flogið með þrjá íslenska skemmtikrafta til eyjunnar. Starfsfólki bauðst að nýta fræðslustyrk stéttarfélags upp í ferðakostnað.

Sara segir fjöldann glögglega sýna samstöðuna og starfsandann hjá Skattinum. „Það er ekki sjálfgefið að geta staðið fyrir jafn fjölmennri ferð utan landsteinanna en það segir töluvert um þá samheldni sem hér ríkir.“

Embættið kom ekki beint að ferðinni

Hún segir félagið hafa séð um skipulagningu fræðsluerinda sem starfsmönnum var boðið upp á sem og skipulagningu árshátíðarinnar sjálfrar. Þannig hafi embætti Skattsins ekki komið beint að ferðinni.

Starfsmenn greiddu sjálfir fyrir ferðina en áttu síðan þess kost að sækja um fræðslustyrki, til dæmis til sinna stéttarfélaga að sögn Söru.

„Að auki stendur starfsmönnum Skattsins til boða að sækja um fræðslustyrk á hverju ári og einhverjir nýttu sér það einnig.“

Sara segir að mökum hafi verið velkomið að koma með í ferðina og að þeir hafi greitt fyrir sína ferð sjálfir rétt eins og starfsmenn.

Hóf undirbúning í ágúst

Starfsmannafélagið hóf skipulagningu á árshátíðarferðinni í ágúst á síðasta ári. Haft var samband við maltnesk skatta- og tollayfirvöld en starfsmönnum Skattsins á Íslandi þótti áhugavert að heyra hvernig yfirvöld á Möltu vinna og hver þeirra helstu áherslumál og áskoranir eru.

„Þetta voru mjög fróðleg erindi og gagnleg fyrir okkur. Skattaumhverfið á Möltu er að vissu frábrugðið því íslenska en þrátt fyrir það eru áskoranirnar fyrir okkur sem vinnum við þessi mál margar þær sömu.“

Ógleymanlegt kvöld

Árshátíðin fór fram á laugardag, að lokinni fræðsludagskrá, í gamalli maltneskri dýflissu sem í dag er notuð fyrir veislur og viðburði. Sara segir salinn vera magnaðan og að þar hafi myndast stórkostleg stemning.

„Enda ekki annað hægt þegar Hjálmar Örn, Eva Ruza og Siggi Gunnars eru fengin til að halda uppi stemningunni,“ segir Sara og heldur áfram: „Þau voru frábær og kvöldið var ógleymanlegt.

Ekki fyrsta árshátíðarferðin

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem starfsmannafélagið stendur fyrir ferð sem þessari að sögn Söru en síðast fór embætti ríkisskattstjóra í fræðslu- og árshátíðarferð til Berlínar árið 2018 auk þess sem embætti Tollstjóra fór í fræðslu- og árshátíðarferð til Haag sama ár.

Snorri Olsen ríkisskattstjóri segir árshátíðarferðir utan landsteinanna ekki vera árvissan viðburð og vísar í að ferðin til Berlínar hafi verið sú síðasta á undan ferðinni í ár.

Fjarri góðu gamni

Þegar blaðamaður hugðist spyrja Snorra hvernig honum hafi líkað ferðin og landið kom í ljós að ríkisskattstjóri var fjarri góðu gamni.

Hann segir alla skipulagningu og utanumhald um kostnað vera starfsmannafélagsins.

„Við hjá Skattinum erum þannig séð ekki ábyrg. Auðvitað getum við haft skoðun á því hvort þetta sé skynsamlegt eða ekki en það er auðvitað starfsmannafélagsins að ákveða það.

Í þessum árshátíðarferðum hefur fólk fengið kynningu frá skattyfirvöldum í því landi, bæði núna á Möltu og í Berlín á sínum tíma. Þannig að það hefur fengist raunveruleg fræðsla út úr þessu einnig,“ segir Snorri.

Veislusalurinn er gömul maltnesk dýflissa.
Veislusalurinn er gömul maltnesk dýflissa. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert