Sýna þarf aðgát og ganga frá lausamunum

Suðvestan hvassviðri og stormur verður á landinu í dag.
Suðvestan hvassviðri og stormur verður á landinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lægð vestur af Íslandi sem færir sig hægt til austurs veldur suðvestan hvassviðri og stormi á landinu í dag, að sögn Marcel de Vries, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Gular viðvaranir taka gildi um land allt að undanskildum Austfjörðum. Á höfuðborgarsvæðinu tekur gul viðvörun gildi klukkan 10.

Flugi til Ísafjarðar og Bíldudals var aflýst í morgun vegna veðurs. 

Hvessir hægt og bítandi

Vindhraði hefur aukist í nótt og það mun hvessa hægt og bítandi. Vindhraðinn nær hámarki síðdegis en búast má við 15-23 metrum á sekúndu víðast hvar en heldur hægari verður Austanlands. Þá verður hviðótt við fjöll. Búast má við skúrum og slydduéljum sem og hagléljum, að sögn Marcels.

Í suðvestanátt sem kemur beint frá sjónum má einnig búast við hvassviðri í Vesturbænum í Reykjavík og er fólk almennt hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Seint í kvöld dregur smám saman úr vindi norðvestan til og í nótt og á morgun dregur frekar úr vindi annars staðar. Veðurviðvaranir á Suður- og Austurlandi falla úr gildi síðdegis á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert