„Ætlum ekki að eltast við kannanir“

Jóhann Páll segir stjórnmálaflokka gjarnan ætla sér um of.
Jóhann Páll segir stjórnmálaflokka gjarnan ætla sér um of. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta snýst um forgangsröðun, ekki stefnubreytingu,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is um greins Sigmars Guðmundssonar, þingmanns Viðreisnar, sem töluvert margir Samfylkingarþingmenn hafa haft skoðun á í dag.

„Kjarni málsins er að Kristrún Frostadóttir fékk skýrt umboð á landsfundi til að skerpa á áherslum Samfylkingarinnar. Við leggjum núna ofuráherslu á velferðarmálin, heilbrigðiskerfið, almannatryggingar, húsnæðisöryggi, aðgengi, samgöngur, mál sem sameina þjóðina frekar en að kljúfa hana, verkefni sem við vitum að við getum skilað af okkur á næsta kjörtímabili og við ætlum ekki að gefa neinn afslátt af,“ segir Jóhann.

Færast of mikið í fang

Segir hann Samfylkinguna bjóða fólki að koma og sameinast um brýn verkefni óháð því hvar það standi gagnvart aðild að Evrópusambandinu.

„Stjórnmálaflokkum hættir til að færast of mikið í fang og Samfylkingin hefur alveg brennt sig á því. Við ætlum ekki að eltast við einhverjar kannanir og við ætlum bara að vera algerlega ærleg við kjósendur,“ segir Jóhann.

Bætir hann því við að Samfylkingin hyggist ekki gefa fyrirheit sem ólíklegt sé að hægt verði að standa við, svo sem að Ísland gangi í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili. „Það er það sem málið snýst um,“ segir Jóhann Páll að lokum. Við spyrjum að leikslokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert