Hermann Nökkvi Gunnarsson
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir í samtali við mbl.is að stýrivaxtahækkun Seðlabankans um 1,25 prósentustig sé algjört rothögg fyrir heimilin í landinu.
Spurður um viðbrögð við hækkuninni segir hann: „Þetta er náttúrulega algjört rothögg fyrir heimilin í landinu, það er ekkert flóknara,“ segir Finnbjörn og heldur áfram: „Mér sýnist Seðlabankinn vera að leita í skjól áróðursdeildar bankanna. Hann þorir greinilega ekki að mæta þeim heldur ætlar hann að taka þessa stýrivaxtahækkun á kostnað heimilanna.“
Finnbjörn segir jafnframt að þessi hækkun muni ekki hafa tilætluð áhrif.
„Allir virðast hafa áttað sig á því, nema Seðlabankinn, að þeir eru að kynda undir verðbólguna með þessum hætti. Þetta mun ekki hjálpa neitt nema bæta í við verðbólguna.“
Hann mun ræða við hagdeild ASÍ á morgun og er að vænta yfirlýsingar frá Þeim í kjölfarið. Hann segir það ljóst að þessi ákvörðun bæti ekki ástandið fyrir kjarasamningsviðræður í haust.