Bílvelta og brotnar rúður í Öræfum

Bílvelta varð á þjóðveginum nærri Kvískeri laust fyrir klukkan tíu …
Bílvelta varð á þjóðveginum nærri Kvískeri laust fyrir klukkan tíu í morgun. Kort/Map.is

Bílvelta varð laust fyrir klukkan tíu í morgun nærri Kvískeri í Öræfum. Stíf vestanátt og mjög hvasst hefur verið á svæðinu en mesti vindhraði mældist 29 metrar á sekúndu klukkan tíu. Þá mældust vindhviður allt upp í 49 metra á sekúndu á sama tíma.

Rúður brotnuðu í kyrrstæðum bílum

Þá brotnuðu rúður í kyrrstæðum bílum á sama svæði. Einhverjir eru slasaðir samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi en fjöldi þeirra liggur ekki fyrir. Bæði er um að ræða meiðsl á fólki eftir bílveltuna og minniháttar meiðsl þegar rúðurnar gáfu sig.

Viðbragðsaðilar við lokun vegarins frá Jökulsárlóni og að Hnappavöllum.
Viðbragðsaðilar við lokun vegarins frá Jökulsárlóni og að Hnappavöllum. Ljósmynd/Aðsend

Verið að loka þjóðveginum

Hrafnhildur Ævarsdóttir, formaður björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum, segir hviðurnar mjög erfiðar á þessu svæði í þessari vindátt. Hún segir mannskapinn enn á svæðinu. „Verið er að loka veginum frá Jökulsárlóni og að Hnappavöllum á meðan þetta gengur yfir og björgunarsveitin er á staðnum ásamt lögreglu og sjúkraflutningamönnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert