Dæmdur í 17 mánaða fangelsi fyrir ítrekuð umferðarlagabrot

Héraðsdómur úrskurðaði manninn í 17 mánaða fangelsi vegna aksturs án …
Héraðsdómur úrskurðaði manninn í 17 mánaða fangelsi vegna aksturs án bílprófs. Maðurinn hefur áður hlotið ítrekaða dóma fyrir umferðarlagabrot. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Evaldas Visberg í 17 mánaða fangelsi fyrir ítrekuð brot á umferðarlögum. Með brotum sínum rauf hann skilorð. Dómurinn féll 10. maí en var birtur í gær.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn 28. mars fyrir akstur án bílprófs sunnudaginn 5. febrúar. Maðurinn ók um Vesturlandsveg við Blikastaðaveg í Reykjavík, þar sem hann var stöðvaður af lögreglu. 

Áður hefur hann hlotið ítrekaða dóma fyrir akstur án bílprófs. Með brotinu í febrúar rauf hann reynslulausn til tveggja ára sem honum var veitt árið 2022.

Maðurinn játaði sök fyrir dómi. 

Héraðsdómur dæmdi manninn í 17 mánaða fangelsi með hliðsjón af fyrri ákærum og ítrekuðum umferðarlagabrotum. Manninum var ekki gert að greiða sakarkostnað en greiðir málsvarnarþóknun til skipaðs verjanda síns, samtals 120.528 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert